Blóðsykursfall – hvað er það?

Það sem blóðsykursfall er í stuttu og auðveldu máli er lækkun á blóðsykri sem verður það mikil að hlutföllin fara undir þau stöðugleikamörk sem hundurinn þarf að hafa í líkamanum til að viðhalda orku og virkni. Að horfa á hundinn sinn í svona ástandi er átakanlegt. Eðlilega þá vita fæstir hvað mögulega gæti verið að gerast, einkennin geta verið þannig að ekki er skrítið að fólki detti í hug að hundurinn sé að drepast.
Það sem veldur þessu er eins og ég sagði áður, blóðsykurinn einhverra hluta vegna hríðfellur. Það getur spilað inn í hvernig dag hundurinn er að eiga t.d lélegur að éta undanfarið, að ná sér eftir pest eða sýkingu.
Helsta orsökin er að of langt er milli máltíða þegar mikil áreynsla er miðað við hvernig líkaminn er þann daginn staddur gagnvart sínum glúkósa.
Þetta ástand getur verið lífshættulegt en er það sem betur fer sjaldnast hjá heilbrigðum hundum en sé t.d hundur á sundi í vatni eða í straumharðri á er staðan frekar vonlaus fyrir hann. Stundum er blóðsykurfall vísbending um undirliggjandi sjúkdómsástand og er algengur fylgikvilli sykursýki en er það allt annað mál og fræði heldur en ég ætla út í hér enda ekki dýralæknir.

Við sjáum oft ekki byrjunar einkennin hjá hundum eins og okkar vegna þess að þeir vinna langt frá okkur, þeir eru heldur ekkert endilega að koma inn til okkar eða eru ekki nógu snöggir til þess áður en lækkunin er það mikil að þeir fara að slaga eða steinliggja.
Einkennin sem við missum gjarnan af eru svimi, óskýr sjón, geta orðið utan við sig, verða móðir svitamyndun eykst, breyttur hjartsláttur og bara mjög skrítnir.
Þetta getur allt verið að gerast þegar blóðsykurinn er á leiðinni niður, þegar hann er aftur á móti komin hættulega langt niður þá gjarnan dettur hundurinn niður, leggst, eða nær að skjögra til okkar. Það getur líka liðið yfir hundinn, komið mikill skjálfti og vöðvakippir. Oftast eru augun skrítin og hundurinn er viðutan. Blóðsykurfall er ekki eins hjá öllum hundum og reynist misjafnlega erfitt og alvarlegt. Flestir sem leita svara eftir að hundur hefur lent í þessu fá útskýringuna flogakast og kannski kemur þetta aftur og kannski ekki. Þetta vissulega getur líkst flogakasti enda eru flog ótrúlega margvísleg. Þar með gæti ferill veiðihunds sem á nokkur góð ár eftir verið þurrkaður út og hann hafður heima af ótta við að leggja of mikið á flogaveikan hund.

Við mannfólkið getum oftast reddað okkur sjálf og vitum hvað er að gerast og hvernig á að bregðast við þegar blóðsykurfall er að nálgast hjá okkur, allt annað mál gegnir með hundana svo við þurfum að geta gripið inn í og hjálpað þeim. Það er ekki margt sem hægt er að gera uppi á heiði eða fjalli ef hundur er kominn í þetta ástand en það er frekar auðvelt að koma í veg fyrir að þetta komi fyrir. Það eru samt auðveld ráð sem við getum gripið til og gott er að kunna þau.
Ef þetta gerist er fyrst og fremst að reyna að koma ofan í hundinn einhverju sætu. Í bakpokanum er gott að hafa þrúgusykur og leysa hann upp með smá vatni ef hundurinn fæst til að drekka. Sýróp og hunang er hægt að nota til að nudda inn á góminn og tannhold ef hundur fæst ekki til að éta, það frásogast frekar fljótt og hjálpar. Hættulegt getur verið að hella vökva upp í hund af hættu á að það fari ofan í lungu en við getum líka notað t.d ávaxtasafa, Gatorade, kex, kökusneið og ýmislegt annað sætt sem við erum með ef hundur fæst til éta eða drekka. Súkkulaði er ekki sérlega æskilegt en notist ef annað er ekki til.
Þegar þetta gerist er æfingunni eða veiðiferðinni er lokið, gríðarlegt álag og rugl átti sér í líkamanum stað og hundurinn þarf hvíld og næringu. Að hafa samband við dýralækni er alltaf skynsamlegt og athuga hvort hann telji þörf á eftirfylgni.

Við getum lent í smá vandræðum þegar kemur að því að fóðra hunda í mikilli áreynslu, það er verið að reyna að forðast Bloat sem er lífshættulegt ástand með því að gefa ekki stórar máltíðir fyrir og á milli hlaupa en hundarnir þurfa að éta til að halda orku og fá ekki blóðsykurfall.
Það sem reynst hefur best eru litlar, reglulegar og orkunægar gjafir yfir daginn. Það sem er gott fyrir hundana er að fá sitt eigið fóður, líkaminn þekkir það og þá skapast heldur engin magaónot á hlaupum. Setjið þurrfóðrið þeirra í lítil box með góðu loki og nóg vatn út á til að fóðrið verði gegnsósa, gefið hundunum litla skammta af þessu reglulega yfir daginn. Þið vatnið þeim eftir þörfum eins og vanalega, búast má við að þeir vilji drekka aðeins minna en vanalega þar sem töluverður vökvi var til staðar í fóðrinu.
Í byrjun hlaupadags ætti ekki að gefa hundi meira en ½ vanalegan skammt og þá helst a.m.k 1-2 klst fyrir hlaup. Að degi loknum fær hundurinn svo sinn venjulega matarskammt.

Höfundur: Sigríður Hrólfsdóttir.